Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar (áður Skólahljómsveit Vesturbæjar) var stofnuð árið 1954. Hljómsveitin býður upp á kennslu á blásturs- eða slagverkshljóðfæri samhliða hljómsveitarspilamennsku og er hún einkum ætluð nemendum á grunnskólastigi. Hljómsveitinni er skipt í þrjár deildir fyrir mislangt komna: yngri sveit (A-sveit), miðsveit (B-sveit) og eldri sveit (C-sveit). Alls stunda um 140 nemendur nám við skólann. Fyrsti stjórnandi hljómsveitarinnar var Páll Pampichler Pálsson en hann stjórnaði hljómsveitinni í 40 ár. Af honum tók Lárus Halldór Grímsson við sprotanum en hann stjórnaði hljómsveitinni frá 1994-2018. Núverandi stjórnendur eru Ingi Garðar Erlendsson og Bára Sigurjónsdóttir. Heimastöð skólahljómsveitarinnar er í Vesturbæjarskóla en hljómsveitin æfir í Hljómskálanum, húsi Lúðrasveitar Reykjavíkur.