Um SÍSL

Samband íslenskra skólalúðrasveita hefur frá upphafi staðið fyrir landsmótum og stuðlað að útgáfu á íslenskum útsetningum fyrir skólalúðrasveitir. Hátt í 40 sveitir tengdar tónlistarskólum, grunnskólum og öðrum skólum taka þátt í þessum verkefnum.
 
Forsögu SÍSL má rekja aftur til ársins 1969, þegar nokkrir stjórnendur skólalúðrasveita hófu samstarf. Var þetta gert fyrir frumkvæði frá Seltjarnarnesi en þar voru fyrstu mótin haldin, á hverju ári frá 1969 til 1974.
Helstu verkefni SÍSL hafa frá upphafi verið að standa fyrir landsmótum annað hvert ár og stuðla að útgáfu á íslenskum útsetningum fyrir skólalúðrasveitir.  

Um tíma var starfsemi Lúðrasveitar Æskunnar fyrirferðamikill hluti starfsins. SÍSL stóð fyrir því að fá hingað til lands erlenda stjórnendur til þess að stjórna sveitinni og hafði einnig frumkvæði að fyrstu hljómsveitarkeppninni sem haldin hefur verið hér á landi en hún var haldin í Reykjaesbæ þann 1. júní 2008.

Frá 2015 hefur SÍSL staðið fyrir stórtónleikum í Hörpu undir yfirskriftinni Óskalög þjóðarinnar en það var Össur Geirsson, fyrrum formaður SÍSL, sem kom Óskalögunum á laggirnar.

Árið 1999 gengu samtökin í NoMU, Nordisk Musik Union og hefur það samstarf reynst samtökunum mjög heilladrjúgt. NoMU hefur m.a. styrkt Skólalúðrasveit Grafarvogs til Noregsfarar og liðsinnt við val á norskum stjórnanda fyrir Lúðrasveit Æskunnar.